Einfaldleikinn er bestur og þessi réttur sannar það, öll hráefnin saman í einn pott og inn í ofn! Vinnuframlagið nánast ekki neitt en útkoman hrikalega ljúffeng. Ég elda kjúkling að minnsta kosti einu sinni í viku og mér finnst mjög gaman að prófa nýja rétti, ég eldaði þennan kjúkling í gærkvöldi og hann vakti mikla lukku. Kjúklingur og sítróna fara svo vel saman.. og ég tala nú ekki um ef þið bætið tímían og smjöri saman við þá tvennu. Sósan sem ég útbjó úr soðinu er ein sú besta, sítrónubragðið er svo gott og ferskt með kjúklingakjötinu að ég verð eiginlega bara að biðja ykkur um að prófa þennan rétt þá vitið þið hvað ég er að meina.
Mæli með þessum og ég vona að þið njótið vel.
Heilsteiktur kjúklingur með sítrónu og tímían
- 1 heill kjúklingur
- 1 sítróna
- salt og pipar
- 1 tsk sítrónupipar
- 1 tsk kjúklingakrydd eða t.d. kjöt og grillkrydd
- 1 tsk ferskt tímían + nokkrir stilkar til viðbótar
- 6 msk smjör
- 350 ml soðið vatn + einn kjúklingateningur
- kartöflur skornar í tvennt, magn eftir smekk
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C (blástur)
- Setjið kjúklinginn í eldfast mót eða notið stóran steypujárnspott (mér finnst allt betra í bláa Le Creuset pottinum mínum 🙂
- Skerið eina sítrónu í tvennt og stingið sítrónubitunum inn í kjúklinginn. Kryddið kjúklinginn með salti, pipar, sítrónupipar, kjúklingakryddi og tímían.
- Setjið nokkrar matskeiðar af smjöri yfir kjúklinginn og setjið hann síðan inn í ofn við 180°C.
- Þegar 20 mínútur eru liðnar af eldunartímanum þá bætið þið soðnu vatni + kjúklingakrafti út í pottinn og mér finnst gott að ausa aðeins yfir kjúklinginn í leiðinni.
- Kjúklingurinn er í ofninum í 1 1/2 klst og þegar það eru ca. 40 mínútur eftir þá bæti ég kartöflunum út í pottinn og krydda þær svolítið með salti og pipar. Það er einnig gott að bæta við nokkrum tímían stilkum.
- Þegar eldunartíminn er liðinn takið þið kjúklinginn út úr ofninum, sigtið soðið frá í pott og undirbúið sósuna (uppskrift hér að neðan).
- Kjúklingurinn þarf að hvíla í ca. 10 mínútur eða lengur, mjög mikilvægt að leyfa honum að hvíla svo kjötið verði safaríkt.
Ljúffeng sósa
- Soð
- 250 ml rjómi
- 1 – 2 msk sósujafnari
- 1 tsk hunang
- salt og pipar
Aðferð:
- Þegar búið er að sigta soðið frá kjúklingnum þá er það sett í pott, hellið rjómanum saman við og náið upp suðu.
- Þykkið sósuna gjarnan með sósujafnara eftir smekk og hrærið vel í sósunni.
- Kryddið til með salti og pipar, ef þið viljið meira kjúklingabragð þá getið þið bætt við smávegis af kjúklingakrafti.
- Bætið hunangi saman við í lokin og berið strax fram!
Einfalt og ljúffengt!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.