Súkkulaðibitakökur með hvítu og dökku súkkulaði.

Súkkulaðibitakökur

Stundum þá fæ ég mikla kökuþörf, einsog gengur og gerist á bestu bæjum. Þá er virkilega gott að henda í eina létta súkkulaðibitaköku uppskrift. Ég prufaði nýja tegund af kökum sem að mínu mati eru virkilega góðar. Nýbökuð súkkulaðibitakaka og ískalt mjólkurglas, það er sko sannarlega einföld hamingja. Það er líka sérlega gott ef maður er í miklu stuði að tvöfalda eða þrefalda uppskriftina, pakka deiginu sem þið ætlið ekki að nota í plastfilmu og láta inn í frysti. Þá er svo ansi fínt að grípa til ef kökuþörfin kallar skyndilega eða þið fáið góða gesti í heimsókn. 
Ég mæli með því að þið prufið þessa uppskrift. Þið getið líka bætt hnetum við eða því sem ykkur dettur í hug.

Súkkulaðibitakökur

u.þ.b. 14 – 16 fremur stórar kökur
220 g hveiti
200 g smjör
2 egg
100 g haframjöl 
150 g sykur
100 g púðursykur
150 g dökkt súkkulaði
100 g hvítt súkkulaði
2 tsk vanilla extract (eða vanilludropar)
1 tsk matarsódi
Aðferð:
Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. Bætið næst eggjum saman við, einu og einu í senn. Blandið því næst öllu saman við eggjablönduna með sleif, hrærið vel í blöndunni en varlega. Kökudeigið á að vera svolítið gróft, það gerir haframjölið. Endilega smakkið ykkur til með deigið, það þykir mér best. 
Mótið kökurnar með msk ef þið viljið hafa þær fremur stórar. Hitið ofninn í 180°C og bakið kökurnar í 12 – 15 mínútur. 
Skreytið kökurnar ef til vill með smá bræddu súkkulaði. 

Fallegar og fínar kökur. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)