Litlar sætkartöflupizzur með lárperumauki og fetaostmulningi

Ég er mjög hrifin af sætkartöflum og er aðeins að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem þær eru í aðalhlutverki. Ég prófaði að útbúa litlar sætkartöflupizzur í hádeginu um daginn og þær voru ansi ljúffengar og þess vegna langar mig að deila uppskriftinni með ykkur. Þetta er sáraeinföld uppskrift og þessi réttur er tilvalin sem forréttur eða létt máltíð, það má alltaf gera gott salat eða eitthvað álíka til þess að hafa sem meðlæti. Einfalt, fljótlegt, hollt og gott!

Sætkartöflupizza með lárperumauki og fetaostmulningi

Fyrir fjóra (2 – 3 á mann)

  • 2 stórar sætar kartöflur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • ferskt eða þurrkað timían
  • 2 lárperur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 límóna
  • kirsuberjatómatar
  • fetaostur, hreinn
  • basilíka

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Skerið sætar kartöflur í sneiðar og leggið á pappírsklædda ofnplötu, sáldrið ólífuolíu yfir og kryddið til með salti, pipar og timían.
  3. Bakið við 180°C í ca. 20 – 25 mínútur eða þar til hýðið er orðið nokkuð hart og kartöflurnar gullinbrúnar.
  4. Maukið saman í skál lárperu, pressuðu hvítlauksrifi og safa úr hálfri límónu. Saltið eftir smekk. p.s. ef þið eigið kóríander er gott að hafa hann með!
  5. Skeri kirsuberjatómata niður mjög smátt, myljið fetaost og saxið ferska basilíku.
  6. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er gott að kæla þær í smá stund. Setjið síðan vel af lárperumauki yfir hverja sneið, því næst fara kirsuberjatómatarnir, fetaostmulningurinn og smátt söxuð basilíka.

Berið strax fram og njótið!

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *